juli 2021
8 Eignaðist gott líf Allir þurfa að takast á við áskoranir samhliða því að sinna daglegu lífi sínu, eiga í samskiptum við annað fólk, reka heimili og þannig mætti áfram telja. Okkur leikur forvitni á að vita hvernig lífið gengur fyrir sig, edrúlífið ef þannig má að orði komast, nú þegar Magdalena á að baki tæplega níu ára bataferli. Er það til dæmis eitthvað öðruvísi fyrir óvirka alkóhólista að takast á við áföll en aðra? Það stendur ekki á svari hjá Magdalenu þegar hún er spurð um þetta. „Ég varð fyrir miklu áfalli í fyrravor þegar góður vinur minn og hálfgerður lærimeistari lést skyndilega,“ svarar hún að bragði. „Ég leitaði mér aðstoðar hjá Drekaslóð og hjá ráðgjafanum mínum sem ég kynntist í Hlaðgerðarkoti. Alkóhólistar kunna það vel að leita í flöskuna þegar áföllin dynja á en þegar alkóhólisti er í bata er hann með verkfæri sem hann er búinn að fá í meðferð og síðar í tólf spora samtökum, sem hann getur notað. Það má því segja að sá sem lokið hefur meðferð sé með betri verkfæri en aðrir til að takast á við erfiðleika.“ Eins og gefur að skilja brennir einstaklingur sem á að baki fjórtán ár í neyslu margar brýr að baki sér, ekki síst í samskiptum við nánustu ættingja og vini. Það verður því ekki hjá því komist að spyrja Magdalenu hvernig hafi tekist til við að endurheimta þau tengsl. „Þegar maður er í neyslu fer maður dofinn í gegnum lífið, neyslan deyfir allar tilfinningar,“ segir hún. „Ég yfirgaf börnin mín og fór frá öllu. Mér hefur tekist að mynda tengsl á ný við systkini mín og móður, en systkini mín töluðu ekki við mig á meðan ég var í neyslu. Ég er í góðum samskiptum við son minn en hef ekki náð að mynda tengsl við dóttur mína á ný. Hún vill ekki eiga þau samskipti og ég þarf að virða það. Hún á fjögur börn sem ég hef því miður ekki fengið að kynnast.“ Er það ekki erfitt? „Það var mjög erfitt fyrstu árin og auðvitað er það alltaf sárt að fá ekki að kynnast barnabörnunum. En ég þarf að halda áfram að lifa mínu lífi,“ segir Magdalena. „Ef einhver hefði sagt mér fyrir tæpum áratug hvar ég yrði stödd í dag hefði ég bara haldið að það væri einhver bíómynd sem ég var ekki að fara að taka þátt í, þetta var svo fjarlægt. Þegar ég sat í geymslunni með rottunni sá ég ekki nokkra framtíð fyrir mér. Ég lifði bara fyrir hvern dag, það var algjör rörsýn og í algjörri afneitun um það hvernig ástand mitt var.“ Hvenær varstu komin í stöðu til að hugsa rökrétt um framtíðina og gera einhver framtíðarplön? „Það var um tveimur árum eftir að ég lauk meðferð,“ segir hún. „Ég bjó þá á Brú og fór að hugsa að mig langaði að byrja að læra ráðgjöf. Þetta kom skref fyrir skref og mér var rétt þetta á hóflegum hraða. Ég hefði ekki höndlað þetta á meiri hraða. Þarna fór mig að langa til að gera eitthvað með líf mitt. Þetta ferli tók langan tíma en það á þó ekki við um alla. Ég var mjög illa farin eftir neyslu og þurfti því lengri tíma en flestir aðrir til að ná jafnvægi, bæði lengri tíma í meðferð og eins í bataferlinu sem þá tók við. Ég var þó dugleg að sækja samkomur og fundi, ég byrjaði að hjálpa öðrum konum í tólf spora kerfinu en á sama tíma gætti ég þess að huga að sjálfri mér, passa upp á mataræði, svefn og hreyfingu, því allt skiptir þetta miklu máli. Það skiptir máli að taka eitt skref í einu og á þeim hraða sem hentar hverjum og einum.“ Erfitt að tengjast fólki upp á nýtt Hvað með þessa daglegu hluti sem fyrir flestum eru einfaldir, eins og að halda heimilisbókhald, greiða reikninga eða sinna öðrum daglegum þörfum? Er það eitthvað öðruvísi? „Fólk missir auðvitað ýmsa færni þegar það er í neyslu, til dæmis það að reka heimili, sinna samskiptum og svo framvegis. Fyrir sumt ungt fólk er þetta erfitt því það er kannski að koma aftur inn í eðlilegt líf án þess að hafa nokkurn tímann öðlast þessa færni því það hóf neyslu svo ungt,“ segir Magdalena. „Hins vegar er það okkar að ná í hana til baka og það eru til ýmis úrræði til þess og fólk sem aðstoðar við það, félagsráðgjafar, fjármálaráðgjafar og fleiri. Ég hef mikla trú á þeim, þeir leiðbeindu mér líka í því hver réttur minn væri í samfélaginu, hvaða úrræði „Það voru allir búnir að afskrifa mig og biðu bara eftir því að ég færi undir græna torfu. Það var samt alltaf einhver von í mér, þó svo að hún yrði alltaf minni ogminni með tímanum.“ “
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=