juli 2021
7 M agdalena kynntist unnusta sínum, Benedikt Arnari Víðissyni, sumarið 2018. Þau trúlofuðu sig í lok sama árs og eru í dag að reisa sér hús á landskika sem þau hafa fest kaup á í Fljótshlíð. Að því loknu stefna þau á að gifta sig í húsinu. Þessi rómantíska saga er eins falleg og hún hljómar. Fáa hefði þó grunað að einn daginn yrði hún sönn, miðað við þá stöðu sem Magdalena var í undir lok árs 2012 eftir fjórtán ár af harðri neyslu vímuefna. Sagan er aftur á móti áminning um að öll eigum við okkur einhverja von. Við sögðum sögu Magdalenu í páskaútgáfu Samhjálparblaðsins 2017 og það er rétt að rifja hana stuttlega upp hér. Hún byrjaði seint í neyslu, 32 ára gömul, en átti þá að baki erfiða barnæsku, ofbeldisfullt samband með fyrri barnsföður sínum og mislukkað hjónaband með síðari barnsföður sínum. Á aðeins þremur vikum var hún djúpt sokkin í drykkju. Næstu fjórtán ár einkenndust af neyslu og til að gera langa sögu stutta missti hún allt frá sér, þar með talið börnin og heimilið. Það var ekki fyrr en hún dvaldi í þrjár nætur í ruslageymslu í Holtunum ásamt rottu sem þar var fyrir að hún rankaði við sér og fór í meðferð í Hlaðgerðarkoti, meðferðarheimili Samhjálpar. Þar dvaldi hún í sex og hálfan mánuð, en hún lýsti því í fyrrnefndu viðtali hversu illa hún var þá farin bæði á líkama og sál sökum neyslu. Starf Samhjálpar breytti lífi Magdalenu. Að lokinni meðferð flutti hún á Brú (áfangaheimili Samhjálpar) og dvaldi þar í rúm fjögur ár. Á meðan á þeirri dvöl stóð sá hún jafnframt um að elda fyrir starfsmenn Samhjálpar auk þess sem hún aðstoðaði á skrifstofunni. Hún lýsir því nú hvernig eftirfylgnin af hálfu Samhjálpar hjálpaði henni mikið þá og gerir enn. „Það skipti miklu máli fyrir mig að fá eitthvert hlutverk, taka ábyrgð og vinna jafnframt að því að hjálpa öðrum,“ segir Magdalena þegar hún rifjar upp þessi fyrstu ár eftir meðferð sína. Þá hefur hún af miklum dugnaði tekið þátt í fjáröflunarstarfi Samhjálpar, selt merki, penna, happdrættismiða og fleira. Auk þess hefur hún lokið námi í Ráðgjafarskóla Íslands auk diplómanáms og dreymir um að geta miðlað af reynslu sinni í þeim tilgangi að hjálpa öðrum. „Ég hef verið sponsor fjölmargra frá því að ég varð sjálf edrú og það hjálpar mér ekki síður en þeim,“ segir Magdalena. Hún hefur á liðnum árum einnig tengst starfi meðferðarsamtaka í Svíþjóð, en þangað hafa margir Íslendingar leitað. „Stundum er það þannig að viðkomandi hefur prófað allt hér á landi en ekkert er að virka,“ segir hún spurð af hverju Íslendingar leiti til Svíþjóðar í meðferð. „Það getur verði gott fyrir suma að skipta um umhverfi. Margir hitta fyrir gamla neyslufélaga í meðferðum – og jafnvel gerendur sína. Það er ýmiss konar ofbeldi sem á sér stað í neysluheiminum og hvort sem það eru karlar eða konur eru þau oft að mæta gerendum sínum í meðferð, þrátt fyrir að flest meðferðarheimili reyni að kynjaskipta skjólstæðingum sínum. Það getur verið gott að komast annað til að stilla sig af og komast í skjól. Sum enda á því að flytja annað, jafnvel til útlanda, af því að þau treysta sér ekki til að vera hérna eftir að hafa lifað lengi í neyslu. Þetta er ekki endilega flótti, sumir þurfa bara að breyta til og komast í annað umhverfi. Það fer bara eftir hverjum og einum hvað reynist best.“ Eignaðist þriðja lífið Magdalena Sigurðardóttir á áhugaverða sögu að baki. Þegar hún kom í meðferð í Hlaðgerðarkoti undir lok árs 2012 var hún svo illa farin af neyslu að henni var vart hugað líf. Hún dvaldi í Hlaðgerðarkoti í rúmt hálft ár og í rúm fjögur ár á áfangaheimili Samhjálpar eftir það. Það var tíminn semhún þurfti til að eiga það góða líf semhún lifir í dag.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=