juli 2021

12 Ný setustofa á Brú E ftir að hafa gefið kvennaganginum í Hlaðgerðarkoti mikla andlitslyftingu fyrir jól tók Soffía Dögg Garðarsdóttir, sem heldur úti vefsíðunni Skreytum hús, að sér að gera breytingar á eftirmeðferðar- og áfangaheimilinu Brú sem rekið er af Samhjálp. Eins og í Hlaðgerðarkoti var útkoman glæsileg á Brú. Í Hlaðgerðarkoti hafði Soffía Dögg breytt einu af herbergjum staðarins í huggulega setustofu, annað herbergi fékk algjöra upplyftingu og herbergjagangurinn var jafnframt uppfærður. Til þess naut hún stuðnings fjölmargra fyrirtækja sem vildu taka þátt í verkefninu, á borð við Byko, Dorma, Húsgagnahöllina, Rúmfatalagerinn og Slippfélagið. Sömu fyrirtæki lögðu hönd á plóginn nú. Áfangaheimilið Brú er búsetuúrræði fyrir fólk sem er að koma úr áfengis- og vímuefnameðferð. Þar eru 18 einstaklingsíbúðir þar sem fólk getur búið í allt að tvö ár eftir meðferð. Markmiðið er að veita samfellda þjónustu og styrkja einstaklinginn til virkrar samfélagsþátttöku eftir áfengis- og vímuefnameðferð. Það felst mikill samfélagslegur ávinningur í því að vel takist til, enda eru skjólstæðingar á Brú gjarna að stíga fyrstu skref sín aftur inn á vinnumarkað, í nám eða aðra þætti samfélagsins eftir að hafa lokið meðferð. Eitt af því hættulegasta fyrir einstakling sem er að koma úr meðferð er félagsleg einangrun og því er jafningjastuðningur og félagastuðningur gríðarlega mikilvægur eftir meðferð. Samhliða aukinni þróun við meðferðarstarf í Hlaðgerðarkoti hafa áherslur tekið framförum á áfangaheimilinu Brú, meðal annars með því markmiði að auka félagslega tengingu á milli íbúa. Af þeirri ástæðu var tekin ákvörðun um að breyta einni íbúðinni í nokkurs konar setustofu eða félagsmiðstöð, þar sem íbúum gefst færi á að hittast á morgunfundum og verja tíma saman þess utan. Slíkur samveru- staður er mikilvægur fyrir þá einstaklinga sem eru að stíga fyrstu skrefin út í samfélagið á ný eftir oft löng og erfið neyslutímabil. Breytingarnar á Brú má sjá á myndum hér á síðunni. Samhjálp þakkar öllum þeim fyrirtækjum sem studdu verkefnið og þá eru Soffíu Dögg hjá Skreytum hús færðar sérstakar þakkir fyrir að vekja máls á starfsemi Samhjálpar og leggja sitt ómetanlega framlag af mörkum við endurnýjun í Hlaðgerðarkoti og á Brú. Á vef Skreytum hús má sjá nánari umfjöllun um húsgögn, málningu og annað efni sem lagt var til í framkvæmdirnar. Samnefndur sjónvarpsþáttur, í stjórn Soffíu Daggar, á Stöð 2 sýndi einnig frá breytingunum og hann má nú sjá í fullri lengd á visir.is. Allar myndir hér á síðunni eru af vef Skreytum hús. Þar má einnig finna nánari lýsingu á öllum þeim húsgögnum og öðrum vörum sem nýttar voru. Eins og sést er töluverður munur á íbúðinni fyrir og eftir breytingar. Soffía Dögg vildi fylla upp í vegginn með einhverju öðru en hillum og fékk þá hugmynd að búa til ljós úr bastluktum sem hún spreyjaði og skrúfaði á veginn. Það kemur ljómandi vel út.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=