Samhjalp des2021
8 fíkniefni,“ segir Tinna þegar hún rifjar upp þennan tíma. „Aftur á móti upplifði ég mig oft út undan, var mjög óörugg og jafnvel það óörugg að ég grét þegar ég þurfti að fara í vinnu eða boð, þar sem ég átti í raun erfitt með að vera í kringum fólk. Þrátt fyrir að ég væri að sjá um stór verkefni í vinnunni fannst mér ég alltaf vera ómerkileg og lítils virði. Ég var alltaf að leita leiða til að sætta mig við hver ég var, sættast við sjálfa mig, en gat það ekki fyrir nokkra muni.“ Á yfirborðinu var allt með felldu, húsið hreint, fjölskyldan vel klædd og starfsferillinn í blóma. En innri líðan Tinnu var með þeim hætti sem lýst er hér að ofan. „Það kom að því að alkóhólisminn bankaði á dyrnar. Ég hóf að neyta fíkniefna og man í raun enn kvöldið sem sú neysla hófst. Ég upplifði mikla frelsistilfinningu og fékk það sem mig hafði skort svo mikið og svo lengi, sjálfsöryggi. Ég upplifði mig sem hluta af hópnum, gat sagt brandara sem ég hafði aldrei þorað að segja áður og gat verið ég sjálf, að ég hélt,“ segir Tinna. Þarna var Tinna tæplega þrítug að aldri. Hún segir þetta líferni hafa byrjað hægt og rólega, hún skemmti sér um helgar en gat sinnt vinnu og heimilis- og móðurhlutverkinu samhliða. „Þetta leit allt vel út. Ég var í foreldrafélagi í skólanum hjá syni mínum í mörg ár og formaður þess um tíma. Ég sinnti vinnunni vel og kláraði þau verkefni sem mér voru fengin,“ segir Tinna. „Það fór þó fljótt að halla undan fæti, strákurinn minn var sendur æ oftar í pössun því að ég vann mikið og stundaði skemmtanalífið ekki minna. Ég varð fljótlega mikill fíkill en reyndi að láta þetta allt ganga. Það fjarar þó fljótt undan manni í svona lífsstíl og maður fer hratt niður á við. Fyrst byrjar maður að skemmta sér aðra hvora helgi, síðan um hverja helgi og áður en maður veit af eru miðvikudagar eða fimmtudagar líka dottnir inn. Ég missti fótanna mjög hratt, drakk mikið og neytti efna, var farin að sofa yfir mig í vinnu en tókst þó að halda vinnunni. Ég var mjög góð í mínu starfi og hafði áunnið mér traust.“ Fjölskyldan missti heimili sitt við efnahagshrunið haustið 2008 og fljótlega eftir það slitnaði upp úr sambandi Tinnu við barnsföður sinn. Í kjölfarið jókst fíkniefnaneysla hennar. „Fólkið mitt var byrjað að taka eftir því að eitthvað var að en ég var hrokafull og full af sjálfsblekkingu,“ segir Tinna. Við tóku ár sem einkenndust af sama lífsstíl og áður. Tinna kynnist öðrum manni og lenti í kjölfari i miklu ofbeldissambandi. Sá maður var í daglegri neyslu og hún leiddist út í þá neyslu með honum. Það endaði með ósköpum að hennar sögn, þar sem hún endaði loks inni á spítala og fór þaðan í meðferð á Vog. „Mér var sýnd virðing og hlýja, sem ég hafði einungis upplifað frá foreldrum mínum en engum öðrum,“ segir Tinna um þann tíma sem hún dvaldi í Hlaðgerðarkoti.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=