Samhjalp des2021

36 Dýrmæt hjálparhönd HÖFUNDUR: WILLUMÞÓR ÞÓRSSON Það er ómetanlegt fyrir samfélagið að hafa félagasamtök á borð við Samhjálp, sem vinna óeigingjarnt starf í þágu einstaklinga sem farið hafa halloka í samfélaginu af hinum ýmsu ástæðum. Þau verkefni sem Samhjálp sinnir í gegnum Meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot, Kaffistofuna í Borgartúni og áfanga- og stuðningsheimili Samhjálpar snerta marga. Þetta er dýrmætt starf sem mörgum er annt um, hvort sem það eru einstaklingarnir sem njóta aðstoðarinnar, aðstandendur þeirra eða aðrir meðlimir samfélagsins. Þar á meðal er undirritaður, sem er þakklátur fyrir það góða starf sem Samhjálp vinnur á hverjum degi í þágu velferðar og sjálfsbjargar þeirra sem þurfa á hjálparhönd að halda. Að veita bjargir Eflaust kannast flestir við söguna af miskunnsama Samverjanum. Það er ekki tilviljun að á hann er minnst þegar fjallað er um Samhjálp. Samtökin eru holdgervingur þeirra gilda sem Samverjinn hafði að leiðarljósi. Hann kom manni sem hafði lent í hrakningum til aðstoðar þegar aðrir menn, virtir og velmegandi, virtu hann að vettugi. Samverjanum var sama um bakgrunn mannsins og tilurð vandans. Hann kom manninum til bjargar án fordóma og sá honum fyrir gistingu og öðrum nauðsynjum. Þannig fékk maðurinn annað tækifæri. Sagan er falleg og boðskapur hennar ekki síður. Markmið Samhjálpar er að veita bjargir þeim einstaklingum sem halloka hafa farið í lífinu, vegna sjúkdóma, fátæktar eða annarra samfélagslegra vandamála. Samtökin hafa heldur betur staðið vaktina í þágu markmiða sinna og fyrir það hljóta þau góðvild samfélagsins, réttilega. Það er erfitt fyrir einstaklinga sem taka á sínum málum, fara í meðferð og lifa það af að komast aftur inn í samfélagið, þeir standa oftar en ekki einir á móti heiminum. Fyrir þá skiptir öllu máli að eiga athvarf og fá stuðning til þess að vinna í sínum málum án fordóma eða fyrir fram myndaðra skoðana. Mikilvægi starfsemi Samhjálpar er óumdeild. Við sjáum jákvæð áhrif samvinnu þar sem einstaklingar vinna óeigingjarna vinnu og brenna fyrir því að hjálpa öðrum, og þar skiptir samspil við hið opinbera máli. Þetta vitum við sem störfum í stjórnmálum og styðjum slíka hugsjónastarfsemi af heilum hug í átt að betra samfélagi. Það vill enginn standa einn Nú líður að jólum. Sá tími árs þegar fjölskyldur koma saman og gleðjast. Margir skjólstæðingar Samhjálpar standa einir á þessum tíma en fyrir tilstilli Samhjálpar eiga þeir tækifæri til þess að halda heilög jól. Næstu jól hafa mögulega einhverjir þeirra náð fótfestu á ný, hver dagur telur, hver hátíð telur. Enginn á að standa einn. Allir eiga rétt á tækifæri til að byggja sig upp á sínum forsendum og á sínum tíma. Því vil ég þakka Samhjálp fyrir gott og mikilvægt starf, það sem það sinnir í dag, alla daga ársins, fyrir öll árin í hartnær hálfa öld. Takk. Höfundur er heilbrigðisráðherra.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=