Samhjalp des2021

34 Er endurreisn á undanhaldi? Jólahugvekja HÖFUNDUR: HAFLIÐI KRISTINSSON Það eru átök á mörgum sviðum í samfélagi okkar þessa dagana. Í umræðunni fer mikið fyrir skilgreiningu á sekt og sakleysi og síðan fer dómstóll götunnar af stað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Í leit okkar að réttlæti og sanngjörnu samfélagi þurfum við oft að takast á við mannlegan breyskleika og að finna leið til að leysa hnútana. Í átökum sem virðast heldur færast í aukana eru hugtökin um ábyrgð, uppgjör og sættir hulin þoku. Í framhaldi af því virðist hugtakið um fyrirgefningu komið út á kant og endurreisn virðist víðs fjarri. Það er ekkert auðvelt, í þessum fjölbreyttu málum sem tekist er á um, að finna góða lausn og aldrei hefur verið jafn mikilvægt að sá sem hefur sært eða svikið taki ábyrgð á sínum þætti og sýni iðrun. Endurreisn er samt lykilhugtak í kristinni trú og mikilvægur þáttur í hugmyndafræði Norðurlandanna um refsingu og endurkomu inn í samfélagið aftur. Í þekktustu jólasögu Charles Dickens, um nirfilinn Ebenezer Scrooge, er tekist á um hugmyndina um endurreisn og fyrirgefningu. Söguna skrifaði Dickens í umhverfi þar sem iðnbyltingin hafði gjörbreytt samfélaginu og staða fátækra og fólks sem var utanveltu í samfélaginu var honum afar hugleikin. Hann tókst líka á við hugmyndina um hvort auðugur og sjálfselskur maður gæti breyst í umhyggjusaman einstakling og fengið endurreisn í umhverfi sem hann hafði sjálfur misboðið herfilega. Viðhorf Scrooge virðast vera afurð liðinna ára sem voru honum erfið – hann hafði verið einmana barn sem átti undir högg að sækja hjá samferðafólki sínu en var nú orðinn að persónu sem bar enga virðingu fyrir samferðamönnum sínum. „Allt er húmbúkk“ voru algeng viðbrögð Scrooge og lýsa viðhorfi hans gagnvart öllu tilstandinu kringum jólin. Þegar Scrooge fær síðan að skyggnast inn í framtíðina opnast augu hans fyrir stöðu einstaklings sem gerir ekkert í sínum málum – það er augnablikið sem öllu breytir hjá Scrooge – þarna hafði hann séð stöðu sína í ljósi fortíðar, nútíðar og framtíðar. Í framhaldi af því gjörir hann iðrun, skiptir um stefnu og fer með fullum þunga að bæta fyrir brot sín. Það er áhugavert að velta fyrir sér vali Dickens á nafni skröggsins. Nafnið Ebeneser er tekið úr 1. Samúelsbók 7:12 – Samúel var spámaður á tímum þar sem allt var í rugli hjá Ísraelsþjóðinni en svo sneri hún sér til Guðs og bað um hjálp og vann sigur á andstæðingum sínum. Í þakklætisskyni reistu Ísraelar minnisvarða, stein sem þeir nefndu Ebeneser því „hingað til hefur Drottinn hjálpað okkur“. Það er ekki ólíklegt að Dickens hafi þekkt þennan texta jafnvel þótt sagan sé ekki með trúarlegum undirtóni jólanna. Ebeneser er áminning – ábending til okkar allra að Guð hefur sannarlega hjálpað hingað til og hvers vegna ætti hann að bregðast okkur núna? Ef þú fengir tækifæri til að koma lífi þínu í lag, myndir þú taka því? Boðskapur jólanna fjallar einmitt um upphaf þessa tilboðs í ljósi kristinnar trúar. Í umræðuþætti í sjónvarpinu ekki alls fyrir löngu sagði einn viðmælenda að allir sem hefðu gert eitthvað rangt vildu gera iðrun og fá tækifæri til að halda lífinu áfram. Það væri gott ef satt væri – jólasaga Dickens varð einhver vinsælasta jólasaga allra tíma, sem gæti bent til þess að innst inni viljum við öll trúa á að hið góða sigri að lokum og að endurreisn standi öllum til boða. Gleðileg jól! Höfundur er fjölskylduráðgjafi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=