Samhjalp des2021

29 samfélagsins. Það veldur mér þó hugarangri að fólk skiptist gjarnan í flokka eftir skoðunum og virðist umræðan um vímuefni og einstaklinga með fíknivanda oft verða einhliða og einkennast af því að aðeins ein leið sé rétt. Sem dæmi má nefna umræðuna um afglæpavæðingu neysluskammta. Hef ég orðið vitni að því þegar einstaklingur hafði uppi spurningar um ágæti afglæpavæðingarinnar að hann var ásakaður um að hafa ekki hag fárveiks fólks að leiðarljósi og ýta undir fordóma. Reyndin er að umræðan um afglæpavæðingu neysluskammta snýr ekki aðeins beint að þeim einstaklingum sem þjást af fíknivanda. Umræðan þarf einnig að snúa að því að ef við ætlum sem samfélag að auka aðgengi að vímuefnum verður einnig að auka forvarnir, fræðslu, aðgengi að meðferðarúrræðum og fjármuni til heilbrigðisstarfsfólks og löggæslu. Einhliða umræða getur aldrei verið uppbyggileg og enn síður leitt til farsælla lausna. Endurtekin umræða um fíknivandann, forvarnir og fordóma tengda fíknivanda skiptir gríðarlega miklu máli. Forvarnir og fræðsla um fíknivandann snúast ekki aðeins um að reyna að koma í veg fyrir að einstaklingur leiðist út í fíkniefnaneyslu, heldur eru mikilvægar til að sporna við vanþekkingu og fordómum í garð jaðarsettra einstaklinga og einstaklinga með fíknivanda. Reynsla mín úr starfi sýnir þó að flestir úr þessum hópi hafa upplifað fordóma frá samfélaginu vegna neyslu sinnar. Fordómar og vanþekking koma frammeð ýmsum hætti, til dæmis þegar því er haldið fram að það sé val einstaklingsins að vera fíkniefnaneytandi. Mögulega er það svo að neysla fíkniefna sé val fyrir suma og líklega má fullyrða að það sé val hvers einstaklings að prófa fíkniefni í fyrsta skiptið. En það að vera einstaklingur með fíknivanda er ekki val neins, að ógna öryggi og heilsu aðstandenda er ekki val, það að missa börn, foreldra, systkini eða vini er ekki val neins, enda myndi enginn velja slíkt fyrir líf sitt af fúsum og frjálsum vilja. Eins efast ég um að þær fjölskyldur og þeir einstaklingar sem þekkja sársaukann sem fíknivandinn hefur í för með sér álíti neyslu og fíkn einstaklingsins vera val. Hér á landi hefur lengi verið unnið með fíknivanda sem sjúkdóm og er hann skilgreindur sem slíkur út frá læknavísindum. Hins vegar segja rannsóknir okkur í auknummæli að nauðsynlegt sé að horfa til fleiri þátta þegar unnið er með orsök og afleiðingu fíknivandans. Horfa þurfi til áfalla og erfiðrar reynslu í æsku, áfalla á fullorðinsárum og þess vanda sem erfist á milli kynslóða. Í Hlaðgerðarkoti hefur verið lagður fyrir spurningalisti um áföll og erfiðar upplifanir sem skjólstæðingar kann að hafa úr æsku. Niðurstöður úr þeim listum eru sláandi og eru jafnframt í samræmi við þær rannsóknir sem sýnt hafa fram á tengsl áfalla og uppeldisaðstæðna úr æsku við fíknivanda. Þrátt fyrir að fagfólk sé í auknum mæli orðið meðvitaðra ummikilvægi þess að horfa heildrænt á líf einstaklingsins þegar unnið er með fíknivanda hans er það umræða sem þarf að ná til allra. Það þarf að verða vitundarvakning á meðal fagfólks og almennings um hversu víðtækur vandi einstaklings með fíknivanda er. Aðeins þannig verður unnið gegn fordómum, vanþekkingu og einhliða umræðu. Á Íslandi hefur fíknivandinn fellt fleiri einstaklinga á þessu ári en COVID-19, bílslys, sjóslys, flugslys eða náttúruhamfarir. Samfélagið verður að standa saman og líta á fíknivandann sem víðtækan heilbrigðisvanda og auka samvinnuna á milli þjónustukerfa. Orðræðan um fíknivandann má aldrei verða einhliða þar sem ein lausn eða ein leið er álitin rétt. Við þurfum að þora að ræða um vandann málefnalega og á opinskáan hátt og vera tilbúin að hlusta á skoðanir annarra. Við þurfum að líta til nýjustu þekkingar um fíknivandann hverju sinni og vinna þannig að bættum hag einstaklinga með fíknivanda. Að lokum langar mig að skora á stjórnvöld að sýna málaflokknummeiri áhuga og hefja gerð aðgerðaáætlunar sem grundvallast á fjölbreyttum úrræðum og aðgangi að fagfólki fyrir fólk með fíknivanda. Höfundur er markþjálfi og fíkniráðgjafi í Hlaðgerðarkoti.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=