Samhjalp_mars2021_net
32 Með drifkraft, hugsjónir og kærleika að leiðarljósi HÖFUNDUR: HANNA KATRÍN FRIÐRIKSSON Með þýðingarmiklu starfi sínu í tæplega hálfa öld hefur Samhjálp skapað sér sess sem einn af lykilaðilum hins svokallaða þriðja geira sem gegnir mikilvægu hlutverki í velferðarþjónustunni hér á landi og víðast á Vestur- löndum. Samhjálp er þar í góðum félagsskap stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja sem mynda frjóan jarðveg fyrir sjálfboðaliða jafnt sem launað starfsfólk sem bæta samfélagið okkar með óeigingjörnu starfi sínu. Verk Samhjálpar við að koma til hjálpar þeim einstaklingum sem hafa farið halloka í lífinu vegna sjúkdóma, fátæktar eða annarra samfélagslegra vandamála, m.a. vegna áfengis- og vímuefnavanda, verða seint þökkuð að fullu. Fyrir öflugt starf sitt nýtur Samhjálp mikils velvilja í samfélaginu, jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem opinberum aðilum. Starfsemin hvílir enda á tveimur styrkum stoðum, annars vegar á fjárframlagi frá hinu opinbera og hins vegar á framlagi frá einkaaðilum í formi sjálfsboðavinnu, gjafa og beinna fjárframlaga. Samhjálp er skínandi dæmi þess hvernig velferðarsamfélagið okkar blómstrar best með samvinnu ríkis og einkaaðila. Enginn velkist í vafa um mikilvægi ríkisrekinnar vel- ferðarþjónustu, en mikilvægi frumkvöðlastarfsemi félagasamtaka á sviði velferðarþjónustu hefur líka verið óumdeilt. Fjárhags- stuðningur stjórnvalda við starf innan þessa þriðja geira er viðurkenning á samfélagslegu hlutverki hans, enda hefur lengi ríkt almenn sátt um að hluti velferðarþjónustu okkar sé þannig í höndum einkaaðila – í umboði og með greiðslum frá ríkinu. Nær hálfrar aldar saga Samhjálpar er skýrt merki um hversu mikilvægt þetta samstarf er. Að samfélagið verður sterkara þegar hægt er að treysta á fleiri stoðir en ríkisrekna þjónustu eina. Þegar kemur til dæmis að meðferð við fíkn er engin ein rétt leið til að hjálpa fólki. Við þurfum fjölbreytt úrræði sem veitt eru af mismunandi aðilum. Þegar markmið Samhjálpar eru skoðuð sést að þau ganga út á að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft. Samtökin standa vaktina fyrir þá sem minna mega sín og aðstoða til sjálfsbjargar. Við þurfum meira af slíkri nálgun. Við verðum að efla fólk; þau sem glíma við andlega erfiðleika af ýmsum toga eiga til dæmis að komast að hjá sálfræðingi án þess að þurfa að bíða óheyrilega lengi eða greiða himinháar fjárhæðir fyrir. Þau sem vilja ná bata við vímuefnafíkn eiga að komast að í úrræði sem henta þeim hið fyrsta og til þess að það gerist þarf samvinnu hins opinbera og samtaka á borð við Samhjálp. Það er á grunni slíkrar samvinnu sem raunverulegur árangur næst. Stjórnmálafólk, hvar í flokki sem það stendur, hlýtur að fagna þeim sem hafa drifkraft, hugsjónir og kærleika til að gera samfélagið okkar betra. Og greiða götu þeirra eins og kostur er. Höfundur er þingflokks- formaður Viðreisnar.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=