Samhjalp_mars2021_net
30 Tími til að tengja HÖFUNDUR: TRYGGVI MAGNÚSSON Oft er rætt un mikilvægi þess að hafa góð tengsl við aðrar manneskjur. Á því höfum við sennilega jafn margar skoðanir og við erum mörg. Það er út af fyrir sig gott, því það væri verra ef allir hugsuðu eins um það. Fjölbreytileiki er þarfur í lífinu. Hann gefur margvíslega sýn á tilveruna. Svo er alltaf spurning hvernig okkur gengur að mynda tengsl. Oftast er það okkar að stíga fyrstu skrefin. Það getur verið erfitt en þó yfirleitt ekki lífshættulegt. Eins þarf að opna smá glufu til að hleypa öðrum að. Mikilvægt er að virða aðra einstaklinga jafnt og okkur sjálf að verðleikum. Svo má ekki láta þess ógetið að þær aðstæður geta skapast í lífinu að rjúfa þurfi ákveðin tengsl. Það er efni í annan pistil. Getur góð tengslamyndun bætt lífið? Ég tel að tengingar við alls konar fólk geti verið hjálplegar, bæði í blíðu og stríðu. Því þar sem mína kunnáttu þrýtur þarf að vera hægt að leita í smiðju annarra. Hvorki ég né aðrir geta verið flinkir í öllu sem að höndum ber. Þá er komið að því hvort ég kann mín takmörk, en þar stendur hnífurinn oft í kúnni eins og sagt er. Hvernig er hægt að æfa sig í því að læra að meta færni sína? Til þess eru margar leiðir og ekki kann ég þær nærri allar, enda væri það að æra óstöðugan. Það eru sem betur fer ýmsir hópar og samtök sem er góð í þessu. Þá kemur að atriði sem bregst hjá mörgum og það er að hafa eyrun opin og hrein. Ég tel að eitt af lykilatriðum þess að bæta líf sitt og þekkja færni sína sé að hlusta vel og vandlega á sýn annarra á lífið og tilveruna. Það segir enginn að alltaf skuli vera sammála síðasta ræðumanni en kannski er það nokkuð sem ég gæti haft not fyrir og er til þess fallið að bæta ástandið. Þetta er oft mikil áskorun en ég tel þetta mikilvægt svo að við getum betur þolað og skilið hvert annað. Við verðum líka að virða hvern einstakling þegar að þessu kemur og ekki þrýsta um of á neinn. Það getur fælt fólk frá. Tilefni þessara skrifa er kynni mín af fólki sem vegna aðstæðna sinna hefur tapað ákveðnum tengingum. Þar getur margt komið til, til dæmis fíknisjúkdómar, atvinnumissir, skilnaður, lát ástvina, flutningar, vinslit og margt fleira sem lesendur geta tengt við. Eru góð tengsl lífsgæði? Ég tel að góð tengsl við aðrar og alls konar manneskjur auki víðsýni og bæti lífið. Það getur jafnframt falið í sér lífsbjörg og aukna vellíðan. Það þurfa ekki allir að vera sammála þessu. En ég mæli með því að hugleiða þetta. Margir vitna um að bætt samskipti og tengingar hafi verið eflandi og styrkt þá í lífinu. Er það ekki eftirsóknarvert? Góðar stundir. Höfundur er umsjónarmaður stuðningsheimila Samhjálpar.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=