Samhjalp_mars2021_net
17 Valdeflandi námskeið fyrir konur Rótin hefur á liðnummánuðum staðið fyrir námskeiði fyrir konur, sem heitir því einfalda en lýsandi nafni Konur finna styrk sinn. Námskeiðið byggir á efni frá dr. Stephanie Covington, sem hefur um árabil unnið að rannsóknum á úrræðum við fíkniröskun og meðal annars rannsóknum á konum í fangelsum og konum í veikri samfélagslegri stöðu. Aðferðin og námsefnið sem notað er á námskeiðinu hefur fengið þá viðurkenningu að vera talin gagnreynd aðferð. Gagnreyndar aðferðir eru þær aðferðir sem hafa ítrekað verið prófaðar og rannsakaðar og hafa sýnt viðurkenndan árangur. Efni dr. Covington er viðurkennt af bandaríska heilbrigðisráðuneytinu sem úrræði sem nýtist til að nota með fólki sem glímir við vímuefnaröskun. Rótin fékk fyrir áramót samfélagsstyrk frá Góða hirðinum til að standa að námskeiðinu og hefur það verið haldið fyrir konur í Hlaðgerðarkoti. Guðrún Ebba Ólafsdóttir, grunnskólakennari og fyrrverandi borgarfulltrúi, hefur haft veg og vanda af námskeiðahaldinu en kvenkyns starfsmenn Hlaðgerðarkots hafa jafnframt liðsinnt. Eins og nafnið gefur til kynna er námskeiðinu ætla að vera valdeflandi fyrir konur, en það felur meðal annars í sér uppgjör á langri áfallasögu eins og fjallað er um hér í viðtalinu. Rótin hefur nú komið vikulega í Hlaðgerðarkot og unnið í hópavinnu með konunum sem eru í meðferð. Ásamt því var haldið námskeið fyrir alla starfsmenn Hlaðgerðarkots. „Við finnum hvað þetta er gott umhverfi til að halda slíkt námskeið í og hvernig þetta gagnast þeim konum sem hafa sótt,“ segir Kristín. „Þetta er vissulega krefjandi tilfinningalega, það er verið að taka á hlutum sem eiga sér djúpar rætur og hafa jafnvel aldrei verið ræddir áður eða átt við þá með öðrum hætti.“ „Konurnar hér hjá okkur tala einnig um að þeim finnist þetta námskeið vera að bæta miklu við meðferðina og í raun er verið að fara inn á hluti sem þær hafa aldrei farið inn á áður. Þrátt fyrir að eiga margar meðferðir að baki finnst þeim að aðferðirnar sem Rótin er að nota til að nálgast tilfinningar muni hjálpa þeim um ókomna tíð,“ bætir Helga Lind við. Helga Lind segir mikilvægt að hlúa vel næstu daga á eftir að þeim sem sótt hafa námskeiðið. Ráðgjafi kvennanna situr með í allri hópavinnu og getur því haldið áframmeð vinnuna næstu daga ásamt því að grípa inn í ef konum líður illa eða erfiðar og sársaukafullar tilfinningar koma upp. „Það koma upp ýmiss konar tilfinningar og vandamál sem mögulega voru falin áður,“ segir Helga Lind. „Þess vegna er mikilvægt að hlúa vel að þeim og tryggja að þær fái þá faglegu aðstoð sem þær þurfa á að halda í kjölfarið. Það hjálpar okkur mikið að fá þessa þekkingu hér inn og í raun færir það meðferðarstarf okkar upp á annað stig. Meðferðarkerfið er of dýrt til að beita ekki bestu aðferðum sem völ er á, vinna saman og nýta styrkleikana hvert hjá öðru.“ Kristín og Helga eru báðar sammála um gagnsemi námskeiðsins. Hér sé stuðst við gagnreynt efni sem byggt sé á rannsóknum og reynslu og virki fyrir konur. Það sé mikill kostur að geta notað þessar aðferðir í öruggu umhverfi þar sem hægt sé að fylgja því sem upp kemur eftir. Kristín segir að lokum að Rótin hafi það markmið að aðstoða önnur samtök með þessum hætti. „Við stefnum ekki á að reisa okkar eigið húsnæði og hefja meðferðarstarf. Þess í stað viljum við leggja okkar af mörkum til að aðstoða samtök á borð við Samhjálp og fleiri með fræðslu og stuðning.“ „Nú þurfum við bara að finna fjármagn til að halda áfram, enda bíður eitt karlanámskeið, sem einnig er byggt á gagnreyndri þekkingu, eftir því að fara í gang í Hlaðgerðarkoti og svo viljum við halda áfram með námskeið fyrir konurnar í Hlaðgerðarkoti,“ segir Kristín og Helga Lind tekur heils hugar undir. Kristín tekur í framhaldinu dæmi af meðferðarúrræðum sem hún hefur kynnt sér á Írlandi, til dæmis dagdeildir þar sem konur geta komið á meðan börnin eru í skóla og meðferðarheimili sem bjóða upp á pössun fyrir ungbörn. Hún segir að vissulega væri gagn af því að bjóða slíka þjónustu hér á landi. Helga Lind nefnir að þetta kosti peninga, en kostnaður samfélagsins af því að missa ungmenni í neyslu síðar sé jafnframt mikill. „Það kostar samfélagið töluvert að fara í gegnum eitt barnaverndarmál, sem jafnvel endar með því að barn er tekið frá foreldrum sínum með dómsvaldi,“ segir Helga Lind. „Barninu eða börnum er komið fyrir hjá fósturforeldrum, sem einnig kostar peninga. Við þetta bætist tilfinningalegur kostnaður sem erfitt er að meta til fjár, öll skömmin og vanlíðanin – sem kann að verða enn eitt áfallið sem fólk verður fyrir og nær ekki að jafna sig á. Þetta kann jafnvel að hafa þau áhrif að viðkomandi nær aldrei bata. Öll slík dæmi munu reynast samfélaginu dýr.“ Kristín bætir við: „Því er umhugsunarvert hvort það væri í raun ekki ódýrara að leggja meira fjármagn í meðferðarúrræði. Meðferðarúrræði sem nýtast, eru gagnreynd og ná til hópa á mismunandi stöðum í fíkniferlinu.“
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=