Samhjalp_mars2021_net
10 Kvennagangur Hlaðgerðarkots fékk upplyftingu K vennagangurinn í Hlaðgerðarkoti fékk mikla andlitslyftingu fyrir jól þegar tvö herbergi þar voru tekin í gegn. Öðru þeirra var breytt í setustofu sem eingöngu er ætlað konum en þá var herbergjagangurinn jafnframt uppfærður. Soffía Dögg Garðarsdóttir, sem heldur úti vefsíðunni Skreytum hús, hafði umsjón með verkefninu. Helga Lind Pálsdóttir, forstöðumaður í Hlaðgerðarkoti, hafði samband við Soffíu Dögg og bað hana um að koma með hugmyndir í þeim tilgangi að gera herbergin á kvennaganginum betri. Kvennagangurinn er í elstu byggingunni í Hlaðgerðarkoti og þeirri einu sem ekki hefur legið undir framkvæmdum. Aftur á móti er búið að gera ný og betri herbergi fyrir karlmenn sem dvelja í Hlaðgerðarkoti. Soffía Dögg tók vel í beiðni Helgu Lindar þrátt fyrir að vera á sama tíma að hefja tökur á nýrri þáttaröð, sem jafnframt heitir Skreytum hús, á Stöð 2. Hún vildi aftur á móti láta gott af sér leiða til Samhjálpar og Hlaðgerðarkots og fékk til liðs við sig fjölmörg fyrirtæki sem gerðu slíkt hið sama. Öll gáfu þau efni og húsgögn, en þetta voru fyrirtækin Byko, Dorma, Húsgagnahöllin, Rúmfatalagerinn og Slippfélagið. Afraksturinn var sýndur í næstsíðasta þætti fyrrnefndrar þáttaraðar á Stöð 2. Til viðbótar við framangreind fyrirtæki gaf Soroptimistaklúbbur Mosfellssveitar sængur, kodda og nýtt lín á öllu herbergi, Soroptimistaklúbbur Árbæjar gaf 100 þúsund krónur og Nytjamarkaður Hvítasunnukirkjunnar á Selfossi gaf 500 þúsund krónur. Þá ber að nefna að góður vinur Hlaðgerðarkots bar hitann og þungann af framkvæmdum, meðal annars parketlögn. Eru honum færðar miklar og góðar þakkir fyrir. Samhjálp þakkar öllum þeim fyrirtækjum sem studdu verkefnið. Þá eru Soffíu Dögg hjá Skreytum hús færðar sérstakar þakkir fyrir að keyra verkefnið áfram og mæta starfi Samhjálpar af svo mikilli hlýju sem hún gerði. Sjón er sögu ríkari og hér á síðunni má sjá myndir, bæði af herbergjunum og ganginum fyrir breytingar og síðan eftir breytingar. Á vef Skreytum hús má sjá nánari umfjöllun um húsgögn, málningu og annað efni sem lagt var til í framkvæmdirnar. Hér má sjá herbergin eins og þau litu út áður. Öðru herberginu var breytt í setustofu fyrir konur. Soffía Dögg Garðarsdóttir er umsjónarmaður vefsíðunnar Skreytum hús. Hún stýrði jafnframt samnefndri sjónvarpsþáttaröð á Stöð 2 fyrir síðustu jól. Hér má sjá muninn á ganginum fyrir og eftir breytingar. (Myndir: Skreytum hús).
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=