Samhjalp juli 2019

4 Útgefandi: Samhjálp Ritstjóri: Gísli Freyr Valdórsson Ljósmyndir: Eggert Jóhannesson og fl. Auglýsingaöflun: Samhjálp Útgáfustjóri: Anna María McCrann Ábyrgðarmaður: Vörður Leví Traustason Hönnun og umbrot: Samskipti Skrifstofa Samhjálpar Hlíðasmára 14 – 201 Kópavogur Sími: 561 1000 Netfang: samhjalp@samhjalp.is Heimasíða: www.samhjalp.is Ef þú ert með hugmynd að efni í blaðið eða vilt senda inn grein eða ljósmynd, hafðu þá samband með því að senda póst á netfangið fjaroflun@samhjalp.is Skrifstofa Samhjálpar er opin alla virka daga frá kl. 10:00 - 15:00. 36. árgangur – 2. tölublað 2019 Í fimm og hálft ár hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá starfa fyrir Samhjálp félagasamtök sem framkvæmdastjóri. Þessi tími hefur liðið ótrúlega hratt og hef ég fengið að sjá og upplifa marga góða og frábæra hluti gerast, en um leið hefur maður þurft að taka á mörgum erfiðum málum eins og gengur og gerist í starfi framkvæmdastjóra. Á þessum tíma hef ég fengið að kynnast mikilli góðvild, vináttu og hlýju víða í þjóðfélaginu, hvort heldur hjá opinbera geiranum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða einstaklingum. Það hefur verið afar skemmtilegt og gefandi að taka þátt í því góða og göfuga starfi sem Samhjálp stendur fyrir. Þegar ég settist í stól framkvæmdastjóra Samhjálpar sá ég að það þyrfti víða að taka til hendinni og þá sérstaklega við húsakost Hlaðgerðarkots, en elstu húsin þar voru orðin vægast sagt mjög döpur og komin vel til ára sinna. Þá var fjárhagsstaða félagsins afar slæm. Strax á fyrsta ári, þ.e. 2014, náðum við og stjórn Samhjálpar að vinda ofan af skuldastöðunni með því að selja og losa okkur við eignir, þ.m.t. húsnæði og bílakost sem var kominn til ára sinna og frekur á viðhald. Því næst var að hefja uppbyggingu í Hlaðgerðarkoti og var ráðist í landssöfnun fyrir nýrri byggingu. Sú söfnun fór fram á Stöð 2 í nóvember 2015 og söfnuðust um 85 milljónir í gjöfum og loforðum þegar að þeim þætti byggingarstigsins kæmi. Í október 2017 héldum við fokheldishátíð, nákvæmlega ári eftir að fyrsta skóflustungan að nýju byggingunni var tekin í Hlaðgerðarkoti. Og þann 8. desember 2018 var nýja húsið tekið í notkun sem er glæsilegur mat- og fyrirlestrarsalur, ásamt nýju eldhúsi og aðstöðu fyrir lækni og hjúkrunarfræðing. Ef ekki hefði verið fyrir aðkomu Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellow-reglunnar á Íslandi og nokkurra stúkna, hefði ekki verið hægt að ljúka framkvæmdum. Í dag er verið að innrétta glæsileg herbergi þar sem áður var matsalur og eldhús ásamt kapellu, og verða 11 herbergi tekin í notkun í ágúst. Fyrir mig sem framkvæmdastjóra félagsins hefur þetta verið mikil áskorun og spennandi verkefni og einstakt kraftaverk. Nú þegar ég hef ákveðið að láta af störfum í október nk. vegna aldurs mun ég kveðja Samhjálparstarfið með söknuði, en með þakklæti og gleði í hjarta yfir öllum þeim frábæru hlutum og verkefnum sem ég hef fengið að taka þátt í. Þá vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum sem hafa styrkt starfið á einn eða annan hátt og gert þetta að veruleika. Einnig vil ég þakka öllu því góða og frábæra starfsfólki Samhjálpar fyrir þolinmæði og gott starf. Ég óska arftaka mínum velfarnaðar og Guðs blessunar í stórkostlegu og mjög gefandi starfi sem Samhjálp er. Það mikilvægasta er að sjá fólk ná tökum á lífi sínu og losna úr viðjum áfengis- og vímuefna og verða nýtir þjóðfélagsþegnar. Vörður Leví Traustason, framkvæmdastjóri Samhjálpar Að leiðarlokum

RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=