Samhjalp_des_2019
4 Útgefandi: Samhjálp Ritstjóri: Gísli Freyr Valdórsson Ljósmyndir: Eggert Jóhannesson og fl. Auglýsingaöflun: Samhjálp Útgáfustjóri: Anna María McCrann Ábyrgðarmaður: Valdimar Þór Svavarsson Hönnun og umbrot: Samskipti Skrifstofa Samhjálpar Hlíðasmára 14 – 201 Kópavogur Sími: 561 1000 Netfang: samhjalp@samhjalp.is Heimasíða: www.samhjalp.is Ef þú ert með hugmynd að efni í blaðið eða vilt senda inn grein eða ljósmynd, hafðu þá samband með því að senda póst á netfangið fjaroflun@samhjalp.is Skrifstofa Samhjálpar er opin alla virka daga frá kl. 10:00 - 15:00. 36. árgangur – 3. tölublað 2019 Þ egar ég fékk símtalið um að mér væri treyst fyrir því göfuga og viðkvæma starfi sem það er að veita Samhjálp forstöðu, þá fann ég sterkt fyrir þakklæti og ánægju að sú væri niðurstaðan. Eftir því sem ég hitti fleiri starfsmenn Samhjálpar hefur þessi ákvörðun orðið enn ánægjulegri og óhætt að segja að það sé áhrifaríkt að finna hvernig hver og einn einasti starfsmaður, sjálfboðaliðar og hlutastarfsfólk sem starfa fyrir Samhjálp gera það af einlægri löngun til þess að gera samfélagið betra og láta gott af sér leiða. Að sama skapi hafa margir komið að máli við mig og óskað mér til hamingju með starfið og í sumum tilvikum hafa þeir sömu spurt: „Er þetta fullt starf?“ Ég viðurkenni fúslega að sjálfur vissi ég í raun ekki hve mikið starf er unnið hjá Samhjálp, þó svo að ég hafi vitað af samtökunum um langt skeið. Ég skil því vel þegar fólk ber upp þessa spurningu og eðlilega vita ekki allir af því mikla starfi sem Samhjálp er að sinna á hvorki meira né minna en átta mismunandi starfstöðvum, með um 25 starfsmenn sem sinna um 300 manns á hverjum degi, allan ársins hring. Miðað við viðhorfskannanir sem gerðar hafa verið síðustu árin eru fjölmargir, eða um helmingur aðspurðra, sem telja sig vita hvað Samhjálp er. Af þeim sem þekkja til Samhjálpar segjast langflestir tengja samtökin við „að hjálpa þeim sem minna mega sín“ og aðrir nefna Kaffistofu Samhjálpar. Það er mjög ánægjulegt að starfsemi Samhjálpar sé í huga fólks góðgerðarstarfsemi, enda markmið samtakanna frá upphafi að veita þeim sem farið hafa halloka í lífinu hjálp til sjálfshjálpar. Mjög fáir tengja Samhjálp við meðferðarstarf og tæplega 2% nefna Hlaðgerðarkot þegar spurt er hvað fólk tengir við Samhjálp. Það vekur athygli þegar litið er til þess að nánast frá fyrsta degi hefur Samhjálp sinnt viðamikilli áfengis- og vímuefnameðferð í Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal. Hlaðgerðarkot er elsta nústarfandi meðferðarheimili landsins. Þar hefur farið fram meðferðarstarf með mjög góðum árangri frá árinu 1974, eða í 45 ár. Um leið og segja má að viðvarandi og sístækkandi biðlisti í meðferð á Hlaðgerðarkoti sé vandamál sem þurfi að leysa, má líka segja að það beri meðferðarstarfinu gott merki. Það eru margir sem vilja komast þar að. Fjöldinn allur af fólki ber því vitni hvernig meðferð í Hlaðgerðarkoti hefur umbreytt lífi þess og um leið þeirra fjölmörgu aðstandenda sem í kringum þá eru. Skjólstæðingar hafa talað um þann kærleika og góðu gildi sem einkenna allt starf Samhjálpar. Samkvæmt fyrrnefndum viðhorfskönnunum eru 92% þjóðarinnar sammála því að þörf sé fyrir fleiri meðferðarúrræði á Íslandi. Einnig kemur fram að 75% þjóðarinnar þekkja einhvern nákominn sem á eða hefur átt við áfengis- og fíkniefnasjúkdóm að stríða. Það er því langstærsti hluti þjóðarinnar sem hefur upplifað þá erfiðleika sem því fylgja að nákominn aðili eigi við áfengis- og fíknisjúkdóm að stríða og vill að til staðar sé áfengis- og vímuefnameðferð. Það er ekki að ástæðulausu að áfengis- og fíkniefnasjúkdómur er gjarnan kallaður fjölskyldusjúkdómur, það verða margir fyrir sársauka af hans völdum. Það er því mikilvægt að styðja við áframhaldandi uppbyggingu þess mikilvæga starfs sem unnið er á Hlaðgerðarkoti til þess að bregðast við þeim vanda sem er til staðar í samfélaginu og þeirri þörf sem langflestir Íslendingar eru sammála um að þurfi að mæta. Með hverjum einstaklingi sem hjálpað er að ná fótfestu í lífinu batna ekki einungis lífskjör þeirra sjálfra heldur fjölmargra sem í kringum þá eru - og um leið samfélagsins í heild. Kostnaður samfélagsins af því að veita þessa aðstoð er mun minni heldur en kostnaðurinn við að veita hana ekki. Það er því mikill hagur af því að heilbrigðis- og félagsmálayfirvöld haldi áfram að leggja sitt af mörkum svo hægt sé að halda starfsemi Samhjálpar gangandi, ásamt því að velunnarar Samhjálpar haldi áfram þeim ómetanlega stuðningi sem þeir hafa veitt samtökunum fram að þessu. Með því er verið að hjálpa Samhjálp að hjálpa öðrum og fyrir það traust eru samtökin óendanlega þakklát og munu halda ótrauð áfram á sömu braut. Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjóri Samhjálpar. Er þetta fullt starf?
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=