Samhjalp_des_2019
34 HÖFUNDUR: HAFLIÐI KRISTINSSON Eitthvað nýtt og eitthvað gamalt M aður verður greinilega var við það þessa dagana að birtumagnið fer hægt og sígandi að minnka. Það er dimmt þegar maður fer í vinnuna og það er dimmt þegar maður kemur heim. Fyrir vel flesta lifir þó minningin að þetta er tímabundið ástand og rétt fyrir jól verður breyting á og daginn tekur að lengja að nýju. Upp á þennan dag hafa menn haldið árþúsundum saman. Í hinum kristna heimi tengjast þessir dagar minningarhátíð um fæðingu frelsarans. Sumir vilja gera mikið úr því að þessi tímamót hafi verið tekin yfir af trúarstofnunum, því lítið sé vitað um raunverulegan fæðingardag Jesú Krists. Við vitum fyrir víst að hann fæddist og reynsla hundruð milljóna manna um allan heim er að áhrif hans eru sannarlega nýtt upphaf í lífi þeirra sem trúa, og grunnstef kristinnar trúar er hugmyndin um nýja byrjun og nýtt tækifæri, lífið kviknar að nýju og ljósið fer að ryðja myrkrinu í burtu. Það getur reynst mörgum erfitt að uppfylla vonina eða væntingarnar sem við gerum til tímamóta sem þessara. Sumir eiga erfitt með svartnættið og minningin um betri tíma verður undir fargi myrkursins. Trúin minnir okkur á að við þurfum öll á hjálp að halda til að sjá ljósið og að færa vonina um góða tíð inn í huga okkar og hjarta. Jólin eru ekki bara dagur, þau eru hugarástand. Þau eru oftar en ekki tengd minningum um góða hluti, eftirvæntingu barnsins og umhyggju sem virðist ná nýjum hæðum á þessum tíma ársins. Þau geta því miður líka verið tengd vonbrigðum, óuppfylltum væntingum og vonleysinu þegar óskin um betri tíð rætist ekki. Sönn jól fjalla ekki bara um það að opna gjafir, heldur að opna hjartað og hleypa umhyggju og kærleika að. Einhver sagði að ef þú ættir ekki anda jólanna í hjarta þínu þá myndir þú aldrei finna þau undir jólatrénu. Einhver annar orðaði þetta undur sem við leitum eftir á þann hátt að við mættum aldrei verða of fullorðin til hætta að leita að stjörnunni á himninum á aðfangadagskvöld. Í leit okkar að þessu nýja erum við líklega alltaf að leita að þessu gamla, einlægri undrun barnsins yfir gjöfum og gleði og að óttinn og myrkrið megi víkja fyrir góðvild og friði manna í millum. Þegar við rifjum upp jól fyrri tíma finnum við yfirleitt að það eru einföldu hlutirnir – ekki stóru gjafirnar – sem skilja eftir sig mestu hamingjuna. Í gamalli smásögu eftir Philip Van Doren sem heitir Stærsta gjöfin, segir frá Georg, manni sem ætlaði að taka eigið líf á sjálfu aðfangadagskvöldinu, þegar ókunnugur maður tekur hann tali og spyr hvers vegna honum líði svona illa. Hinn svarar að hann vildi að hann hefði aldrei fæðst. Ókunni maðurinn segist geta veitt honum þá ósk. Með það fer Georg aftur til heimabyggðar sinnar, en enginn þekkir hann þar. Hann kemst að því að margt hafði farið úrskeiðis í nærumhverfi hans vegna þess að hann hafði ekki fæðst. Georg snýr til baka og krefst þess að fá að snúa til baka og koma hlutunum í lag aftur. Ókunni maðurinn segir við hann að hann hafi afneitað stærstu gjöfinni, lífinu sjálfu, en fái nú tækifæri til að snúa aftur til þeirra sem hann hafði haft áhrif á í lífinu. Kannski er stærsta gjöfin sú að þú áttir þig á mikilvægi nærveru þinnar meðal fjölskyldu þinna og vina og hvaða áhrif til góðs þú getir haft, ekki bara á jólum, en hvernig væri að þakka fyrir stærstu gjöfina á þessu, jólum, lífið sjálft. Gleðileg jól! Höfundur er fjölskylduráðgjafi.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=