Samhjalp_des_2019
24 Hjólaði yfir landið Ó skar Þór Guðmundsson lét sér ekki nægja að hlaupa 10 km. í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar, heldur hjólaði hann yfir landið áður en hlaupið hófst. Óskar Þór er búsettur á Fáskrúðsfirði, þar sem hann starfar sem lögreglumaður, og hjólaði þaðan til Reykjavíkur þvert yfir hálendið. Með afreki sínu safnaði Óskar Þór rúmlega 620 þúsund krónum fyrir Samhjálp. Ferð hans tók ellefu daga. „Þetta er minna mál en menn halda,“ segir Óskar Þór glettinn í samtali við Samhjálparblaðið, þegar hann var spurður um ferðina. Hann bætir þó við að þegar hann tók ákvörðun um um að hjóla þessa leið, í kringum síðustu áramót, var hann ekki í neinu hjólaformi. Hann hóf að mæta í spinning tíma og keypti sér í kjölfarið hjól. „Það hjálpaði þó vissulega til að ég er vanur hálendinu og útiveru,“ segir Óskar Þór. „Þó að þetta væri á köflum erfitt kom aldrei til greina að hætta við. Fyrstu tveir dagarnir voru erfiðastir, þá var mikil hækkun, mótvindur og rigning. Ég leit þó þannig á að með hverjum metra sem ég færi áfram væri einum metra styttra að markinu. Óskar Þór hjólaði eftir vegslóða sem liggur yfir hálendið. Eiginkona hans, Málfríður Hafdís Ægisdóttir, keyrði á eftir honum alla leiðina. „Hennar þáttur er ekki síðri í þessu öllu saman,“ segir Óskar Þór. „Það krefst mikillar þolinmæði að keyra á þessum hraða í ellefu daga, en þess utan sá hún um að útbúa allan mat á leiðinni, fjórar stórar máltíðir á dag. Svona verkefni krefst þess að maður innbyrði um 5.000 kaloríur á dag. Þetta var verkefnið okkar og ég hefði ekki getað þetta án hennar.“ Þakklátur fyrir Samhjálp Óskar Þór er ekki ókunnugur starfi Samhjálpar. Dóttir hans, Stefanía Óskarsdóttir, náði bata eftir að hafa lokið meðferð í Hlaðgerðarkoti árið 2016. Hún var þá illa farin af neyslu, en lifir í dag heilbrigðu lífi austur á Fáskrúðsfirði. Stefanía sagði sögu sína í páskaútgáfu Samhjálparblaðsins í fyrra. „Ég er auðvitað gífurlega þakklátur Samhjálp fyrir það starf sem þar er unnið,“ segir Óskar Þór. „Meðferðin í Hlaðgerðarkoti var einn mikilvægasti þátturinn í því að bjarga lífi dóttur minnar. Ég vildi með söfnuninni í sumar bæði þakka fyrir það og eins leggja mitt af mörkum til að samtökin geti hjálpað öðrum í framtíðinni. Heilt yfir litið er það ekki nógu gott fyrir okkar samfélag að meðferðarstarf og sú aðstoð sem veita þarf eftir meðferð sé að mestu leyti í höndum sjálfboðaliða sem þurfa að treysta á fjárframlög einstaklinga og fyrirtækja. Það er ekki sagt af vanvirðingu fyrir störfum þeirra, heldur er það frekar áminning um að hið opinbera sé ekki að sinna þessum málaflokki eins vel og hægt er.“ Samhjálp þakkar Óskari Þór fyrir hans mikilvæga framlag og óskar fjölskyldunni alls hins besta. Hér sést leiðin sem Óskar Þór hjólaði þvert yfir landið, frá Fáskrúðsfirði til Reykjavíkur. Á fullri ferð sunnan við Öskjufjallgarðinn. Kjötsúpa elduð í rigningunni á miðju hálendinu. Þegar vindurinn var of sterkur fyrir tjaldið var gripið til þess að sofa í bílnum. Kominn á endastöð, við rásmark Reykjavíkurmaraþonsins í Reykjavík. Þegar vel viðrar er hálendið fallegur staður til að hjóla yfir.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=