VK2021
54 Frostastaðavatn að Fjallabaki sem fangað hefur margan veiðimanninn í gegnum árin. Umhverfi vatnsins er með því fallegasta og fjölbreyttasta sem gerist á Íslandi. Sandfjörur að norðan þar sem tilvalið er að ærslast á milli þess að bleikjan nartar í agnið. Að austan, næst Landmannalaugum, eru háir grónir bakkar sem gott er að nýta í nestispásur eða til skjóls ef hann skildi nú fara að blása. Sjaldnast þarf að hafa áhyggjur af aflabresti á þessum slóðum, vatnið kraumar af bleikju. Inn með vatninu til suðurs er tilvalið að rölta í átt að Suðurnámshrauni þar sem við taka víkur og vogar sem geyma oft ógrynni bleikju, gjarnan stærri en undir sandströndinni að norðan og austan. Þar má auðveldlega gleyma sér uppi á hraunbrúninni við það að virða fyrir sér heilu torfurnar af bleikju sem sækja í kaldar uppsprettur undir hrauninu á heitum sumardögum. Síðan má ekki gleyma þeim slyngu veiði- mönnum sem við vatnið búa. Það er sjónarspil sem seint gleymist þegar fylgst er með himbrimanum koma inn í víkurnar og fækka í bleikjustofninum. Í minningunni eru blíðviðrisdagar að Fjallabaki alveg einstakir. Sumarið er að vísu stutt á fjöllum og gróðrinum veitir ekkert af þeim fáu og góðu dögum sem gefast til að ná sér á strik eftir harðan vetur. Mig langar því að biðja Veiðikortshafa að gæta vel að gróði og umhverfinu öllu, skilja aðeins eftir spor sín í sandinum að loknum ánægjulegum degi við Frostastaðavatn. Ef vel tekst til, má ylja sér í Landmannalaugum áður en haldið er heim á leið með nokkrar bleikjur í farteskinu og frábærar minningar veiðimanna, yngri sem eldri. Sé einhver staður til þessa fallinn að kveikja ævilanga veiðibakteríu og lotningu fyrir náttúrunni, þá er það Frostastaðavatn og nágrenni þess. Þar gefur allt að líta sem fangað getur auga, huga og veiðimann. Veiðikveðja, Kristján Friðriksson - www.fos.is
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjE3NDU=